Framkvæmdastjórn Söngvakeppninnar segir kosningakerfið á Íslandi vera í skoðun og RÚV hafi skoðað möguleika á breytingum á kosningafyrirkomulaginu. Í undankeppni Norðmanna er boðið upp á netkosningu en að sögn framkvæmdastjórnarinnar eru tekjurnar úr símakosningu „ómissandi fyrir RÚV“.
Þetta kemur fram í svari framkvæmdastjórnarinnar á vef mbl.is. Þar segir jafnframt að nýtt Eurovision-app verði að líklega í boði í kosningu Eurovision í vor og mögulegt að það verði einnig hér á landi á næsta ári.
Það sé þó mikilvægast að kosningin sé vel skipulögð og það séu takmörk á atkvæðafjölda hvers og eins. Þannig sé kosningin líkust alvöru lýðræðislegum kosningum en opnar netkosningar geri það erfiðara í framkvæmd.
„Þær þjóðir sem hafa prófað slíkt í sínum undankeppnum hafa flestar fallið frá því. EBU leyfir ekki opnar netkosningar í Eurovision, þar er sams konar símakosning og í Söngvakeppninni,“ segir í svarinu til blaðamanns mbl.is.
Að sögn framkvæmdastjórnarinnar þyrfti nýr tekjustofn að koma til ef fallið yrði frá núverandi fyrirkomulagi. Hvert atkvæði sem greitt er í Söngvakeppninni kostar 139 krónur og fær RÚV þannig tekjur. Þátttaka beri það með sér að ekki sé mikill munur á kosningaþátttöku milli aldurshópa og því fátt sem bendi til þess að fólk setji það fyrir sig að greiða 139 krónur fyrir atkvæðið.