Innlent

Ók bíl utan í sölu­turn á Suður­nesjum

Atli Ísleifsson skrifar
Lögreglustöðin í Reykjanesbæ.
Lögreglustöðin í Reykjanesbæ. vísir/vilhelm

Ökumaður ók bíl sínum utan í söluturn í umdæmi lögreglunnar á Suðurnesjum í gær.

Þetta kemur fram í tilkynningu frá lögreglunni á Suðurnesjum. Þar segir að ökumaður, sem hafi ætlað að versla í bílalúgu, hafi ekki áttað sig á hversu nærri bifreiðin var söluturninum og ekið utan í horn byggingarinnar. Skemmdir urðu bæði á byggingunni og bílnum. Ekki er tekið fram í tilkynningu lögreglunnar hvar umrætt slys átti sér stað.

„Þessu til viðbótar hafa orðið nokkur umferðaróhöpp í umdæminu á síðustu dögum. Ökumaður sem ók Reykjanesbraut missti bifreið sína út af veginum í mikilli hálku. Ekki urðu slys á fólki en bifreiðin var óökufær eftir óhappið. Annar ökumaður sem ók fram hjá umferðaróhappinu missti stjórn á sinni bifreið og hafnaði hún einnig utan vegar.

Þá varð umferðaróhapp á Njarðarbraut og voru báðar bifreiðirnar óökufærar, en ekki slys á fólki,“ segir í tilkynningunni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×