169 tilfelli kórónuveirunnar sem veldur Covid-19 greindust í Suður-Kóreu í dag. Alls eru tilfellin í landinu orðin rúmlega 1100. Þá hefur bandarískur hermaður í Suður-Kóreu nú greinst með veiruna, sá fyrsti innan sinna raða í landinu.
Flest tilfellin sem greindust í dag, eða 134, eru í borginni Daegu í suðurhluta landsins. Hin tilfellin greindust öll í nærliggjandi bæjum.
Sjá einnig: Smituðum fjölgar í Evrópu og víðar
Þá greindist bandarískur hermaður í Suður-Kóreu með veiruna. AP-fréttastofan greinir frá því að hermaðurinn sé 23 ára og sé í heimasóttkví í herstöðinni Camp Carroll, steinsnar frá Daegu. Hann er sagður hafa farið víða í Carroll og einnig heimsótt Camp Walker, nærliggjandi herstöð, dagana í aðdraganda greiningarinnar.
Nær þrjátíu þúsund bandarískir hermenn eru í Suður-Kóreu. AP greinir frá því að kvikmyndahúsum, keiluhöllum og golfvelli hafi verið lokað á fjórum herstöðum Bandaríkjahers í landinu eftir að smit hermannsins var staðfest.
Þá greinir fréttaritar BBC í Suður-Kóreu frá því að embættismaður í Daegu, sem fundaði með forseta landsins, hafi greinst með kórónuveiru.
There has been a confirmed case of coronavirus in a Daegu city hall official. People who'd been working with that official were in the meeting with the South Korean President yesterday. https://t.co/MINC3cDA7B
— Laura Bicker (@BBCLBicker) February 26, 2020
Eins og áður segir eru kórónuveirutilfellin í Suður-Kóreu nú orðin ríflega 1.100 og ellefu hafa látist af völdum veirunnar. Enn hafa langflest tilfelli veirunnar greinst í Kína en í dag hafa þar verið staðfest 406 ný tilfelli og 52 dauðsföll, öll í borginni Wuhan eða nágrenni hennar þar sem veiran á upptök sín.
Á sama tíma og dregið hefur úr fjölgun smitaðra í Kína fjölgar smituðum hratt annars staðar í heiminum. Bara í fyrradag og í gær hafa komið upp ný smit í Króatíu, Austurríki, Sviss og Alsír. Í heildina hefur verið staðfest að rúmlega 80 þúsund eru smitaðir í rúmlega 30 löndum.
Útbreiðsla veirunnar hefur valdið óróleika á fjármálamörkuðum og er fólk um allan heim að hætta við fyrirhuguð ferðalög. Sjö Íslendingar eru á meðal þúsund gesta sem eru í sóttkví á hóteli á Tenerife eftir að kórónuveirusmit greindist á eyjunni. Ítalskur læknir greindist með veiruna aðfaranótt þriðjudags og nú hefur verið staðfest að kona hans smitaðist einnig.