Viðskipti innlent

Ís­lendingar ekki mælst svart­sýnni í sex ár

Eiður Þór Árnason skrifar
Vísitalan er byggð á svörum Íslendinga 18 ára og eldri af öllu landinu.
Vísitalan er byggð á svörum Íslendinga 18 ára og eldri af öllu landinu. Vísir/vilhelm

Íslendingar hafa ekki mælst svartsýnni til stöðu og framtíðarhorfa í efnahags- og atvinnulífinu í sex ár, ef marka má Væntingavísitölu Gallup.

Vísitalan, sem uppfærð var í morgun, hefur lækkað um tæplega 20 stig í febrúarmánuði og mælist nú 75,3 stig. Fari talan niður fyrir 100 stig eru fleiri svarendur neikvæðir en jákvæðir.

Vísitalan hefur nú ekki mælst lægri frá því í nóvember 2013 og hefur hún verið undir 100 stigum frá því í ágúst 2018.

Allar undirvísitölur Væntingavísitölunnar lækka umtalsvert á milli mánaða og sú undirvísitala sem mælist lægst er mat neytenda á efnahagslífinu. Næst á eftir eru væntingar neytenda til næstu sex mánaða.

Sjá einnig: Lækkanir í Kauphöll, afbókanir og áform á ís vegna kórónuveirunnar

Fram kemur í greiningu Íslandsbanka að ætla megi að helstu ástæður þessarar dýfu séu vaxandi órói á íslenskum vinnumarkaði sem ekki sjái fyrir endann á og útbreiðsla kórónuveirunnar sem nú herjar á heimsbyggðina.

Þá er Væntingavísitalan sögð hafa talsvert forspárgildi fyrir skammtímaþróun einkaneyslu. Til að mynda hefur hægt á vexti einkaneyslu undanfarin misseri samhliða því að væntingar almennings hafa dökknað.

„Þótt ekki sé hægt að draga sterkar ályktanir af mánaðarsveiflum í [Væntingavísitölu] bendir þróunin það sem af er ári fremur til þess að vöxtur einkaneyslu verði hægur, ef nokkur, á fyrsta fjórðungi ársins. Það fer svo væntanlega eftir því hvort horfur um þróun COVID-19 batna og staðan á vinnumarkaði róast með hækkandi sól hvort einkaneysluvöxturinn glæðist að nýju þegar líður á þetta ár,“ segir í greiningu Íslandsbanka.


Tengdar fréttir






Fleiri fréttir

Sjá meira


×