Þetta kom fram í svari ráðherra við fyrirspurnum í óundirbúnum fyrirspurnatíma á þinginu í dag. Þar beindu þingmenn sjónum sínum að hinum ýmsu áhrifum veirunnar á samfélagið.
Halldóra Mogensen þingflokksformaður Pírata sagði ljóst að faraldurinn myndi koma til með að bitna einna verst á tekjulægstu hópunum. Nefndi hún þar að matarúthlutun Mæðrastyrksnefndar hefði verið hætt vegna smithættu og hvergi væri að finna svör í viðbragðsáætlunum Almannavarna um hvernig ætti að koma til móts við fólk í mikilli fátækt.
„Ég sakna þess á undanförnum dögum að heyra forsætisráðherra ræða það hvernig ríkisstjórn hennar ætlar að tryggja að COVID-19 muni ekki hafa alvarleg áhrif á þá sem búa við fátækt í samfélaginu, enda er það einn af viðkvæmustu hópum samfélagsins,“ sagði Halldóra.

„Er það núna þannig að einhver verði heima og það verði ekki einu sinni vatnsflaska eða lýsisflaska í ísskápnum?“
Ásmundur sagði þetta vera eitt af þeim verkefnum sem væru á borði ráðuneytisins og ríkisstjórnarinnar. Áhrif COVID-19 á íslenskt samfélag gætu orðið margvísleg og viðbrögð við þeim væru komin í ákveðinn farveg.
„Við munum vonandi fá frumvarp í þingið vonandi í lok þessarar viku um laun í sóttkví, þannig það eru aðgerðir til að mynda gagnvart þeim sem þurfa atvinnuúrræði í samstarfi við Vinnumálastofnun. Við erum að reyna að vinna þetta eins hratt og mögulegt er og við treystum á gott samstarf við þingið og velferðarnefnd ef að til þurfa að koma einhverjar lagabreytingar eða mál hér inn í þingið.“
„Við vitum um mikilvægi þeirrar starfsemi sem er hjá Mæðrastyrksnefnd, Rauða krossinum og fleiri,“ sagði Ásmundur og þakkaði þingmönnum fyrir brýninguna.