Peningastefnunefnd Seðlabanka Íslands hefur ákveðið að lækka vexti bankans um 0,50 prósentur. Meginvextir bankans, vextir á sjö daga bundnum innlánum, verða því 2,25% og hafa aldrei verið lægri. Jafnframt hefur nefndin ákveðið að lækka meðaltalsbindiskyldu innlánsstofnana úr 1% niður í 0%. Föst bindiskylda verður áfram 1%.
Til stóð að peningastefnunefndin myndi kynna ákvörðun sína í næstu viku en ákveðið var í gær að flýta henni til dagsins í dag. Ásgeir Jónsson seðlabankastjóri sagði í síðustu viku að viðbúið væri að stýrivextir yrði lækkaðir vegna áhrifa kórónuveirunnar.
Í rökstuðningi peningastefnunefndar segir að lækkun „meðaltalsbindiskyldunnar og breytt meðferð á föstu bindiskyldunni í lausafjárreglum munu rýmka lausafjárstöðu bankanna og auka svigrúm þeirra til að bregðast við breyttum aðstæðum í þjóðarbúskapnum.“
Sjá einnig: Veita fyrirtækjum svigrúm og bæta í opinberar framkvæmdir
Með þessum aðgerðum sé slakað nokkuð á taumhaldi peningastefnunnar í ljósi versnandi efnahagshorfa í kjölfar aukinnar útbreiðslu COVID-19-veirunnar.
„Peningastefnunefnd mun áfram fylgjast grannt með framvindu efnahagsmála og nota þau tæki sem nefndin hefur yfir að ráða til að styðja við þjóðarbúskapinn.“
Vísir birtir beina vefútsendingu af kynningarfundi Ásgeirs Jónssonar seðlabankastjóra og Rannveigar Sigurðardóttur varaseðlabankastjóra þar sem þau gera grein fyrir ákvörðun nefndarinnar. Útsendingin hefst klukkan 10.
