Erlent

Fylgdust skelfingu lostin með stúlkunni takast á loft

Kristín Ólafsdóttir skrifar
Stúlkan sést hér hanga í hala flugdrekans.
Stúlkan sést hér hanga í hala flugdrekans. Skjáskot

Ótti greip um sig á mannamóti í Taívan í gær þegar þriggja ára stúlka flæktist í flugdreka og tókst hátt á loft. Stúlkunni var að endingu bjargað og sakaði ekki.

Stúlkan var stödd á flugdrekahátíð ásamt fjölskyldu sinni í taívanska bænum Nanliao á sunnudag þegar flugdrekinn hreif hana á brott með sér. Myndbönd sem náðust af atvikinu sýna að stúlkan þeyttist marga metra upp í loft og var föst á flugi í yfir hálfa mínútu. Hátíðargestir fylgdust skelfdir með atburðarásinni áður en náðist að lækka flug flugdrekans og bjarga stúlkunni.

Breska dagblaðið Guardian hefur eftir taívönskum miðlum að stúlkunni hafi verið mjög brugðið en hún hafi sloppið ómeidd. Talið er að hvassir vindar á svæðinu hafi valdið því að flugdrekinn flæktist utan um mitti stúlkunnar og greip hana með sér.

Myndbönd af atvikinu má sjá í spilaranum hér fyrir neðan.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×