Glódís Perla Viggósdóttir var á skotskónum þegar Rosengard sigraði Djurgarden á heimavelli í sænsku úrvalsdeildinni í fótbolta. Lokatölur 3-0.
Staðan var 0-0 í hálfleik en eftir einungis þriggja mínútna leik í síðari hálfleik skoraði Anna Anvegaard fyrsta mark Rosengard. Anam Imo bætti við marki á 56. mínútu og það var síðan íslenska landsliðskonan Glódís Perla sem gulltryggði sigurinn með marki á 84. mínútu. Guðrún Arnardóttir lék allan leikinn í vörn Djurgarden.
Rosengard er nú með þriggja stiga forskot á toppi deildarinnar þegar fjórtán umferðir hafa verið spilaðar. Djurgarden er í 8. sæti með 16 stig.