Íslenski boltinn

„Verður eitt­hvað gull til úr þessu því hún er ekki búin að ná sínu þaki“

Anton Ingi Leifsson skrifar
Sveindís Jane Jónsdóttir hefur verið frábær í sumar.
Sveindís Jane Jónsdóttir hefur verið frábær í sumar. VÍSIR/VILHELM

Sveindís Jane Jónsdóttir hefur farið á kostum í liði Breiðabliks í sumar en hún er á láni hjá Kópavogsliðinu frá Keflavík.

Sveindís hefur skorað tíu mörk í þeim tólf leikjum sem hún hefur spilað í Pepsi Max deildinni og tvö þeirra komu gegn Stjörnunni í fyrrakvöld.

Frammistaða Sveindísar var til umræðu í Pepsi Max mörkum kvenna í gærkvöldi þar sem Helena Ólafsdóttir og spekingar hennar; Margrét Lára Viðarsdóttir og Mist Rúnarsdóttir gerðu upp umferðina.

„Hún er með alls konar gæði og eiginlega sem nýtast í báðum stöðum,“ sagði Mist Rúnarsdóttir en Sveindís hefur verið að spila sem hægri vængmaður eða sem framherji.

„Þetta er hennar staða [framherjinn] og hún gerir það vel. Bæði skorar hún og hún er endalaust í því að leggja upp. Hvort sem það eru þessi svaka innköst eða þessir spettir.“

„Hún er þannig sóknarmaður að hún leitar mjög á bakvið bakverðina. Hún vill leita út í kantana og finna sér svæði þar. Hún vill komast á hraðann og það er hennar styrkleiki á meðan Berglind Björg er öðruvísi senter,“ sagði Margrét Lára.

„Hún er meira fyrir miðju og er að batta. Það eru kostir og gallar við það en Sveindís er frábær í sínum eiginleikum.“

Mist sagði að Sveindís hafi haft mörgum hlutverkum að gegna í gegnum sinn feril, þrátt fyrir ungan aldur, og það muni hjálpa henni.

„Þegar þetta smellur allt saman hjá henni og er búin að taka lærdóm úr hverju og ævintýri þá verður eitthvað gull til úr þessu því hún er ekki búin að ná sínu þaki. Þvílíkt spennandi tímar framundan hjá henni,“ bætti Mist við.

Klippa: Pepsi Max mörk kvenna - Umræða um Sveindís Jane



Fleiri fréttir

Sjá meira


×