Umfjöllun: Þór/KA - Breiða­blik 0-7 | Aftur niðurlægðu Blikarnir Þór/KA

Anton Ingi Leifsson skrifar
Sveindís Jane Jónsdóttir hefur verið frábær í sumar.
Sveindís Jane Jónsdóttir hefur verið frábær í sumar. VÍSIR/VILHELM

Breiðablik rúllaði yfir Þór/KA í annað skiptið á nokkrum vikum er liðin mættust norðan heiða í dag. Lokatölur 7-0, eins og í viðureign liðanna á dögunum.

Það er innan við mánuður síðan liðin mættust á Kópavogsvelli. Þá höfðu Blikarnir betur 7-0 og héldu kannski einhverjir að heimastúlkur myndu múra fyrir í dag.

Veislan hófst á 3. mínútu er Hulda Karen Ingvarsdóttir skoraði sjálfsmark og fyrir hlé höfðu Blikar skorað þrjú önnur mörk.

Í síðari hálfleik bættu Blikarnir við þremur mörkum og unnu sinn þriðja 7-0 sigru á þessari leiktíð.

Blikarnir eru því aftur komnir á toppinn, með jafn marga leiki og Valur, en Blikarnir eru með tveggja stiga forskot á Val.

Afhverju vann Breiðablik?

Einfaldlega betri á öllum sviðum fótboltans. Varnarmenn heimaliðsins réðu ekkert við skarpa sóknarlínu Blika og ef það var ekki mörk eftir flott spil þá voru það draumamörk hjá Blikum.

Hverjar stóð upp úr?

Sveindís Jane Jónsdóttir heldur áfram að spila frábærlega og það verður einnig að nefna þær Karólínu Leu Vilhjálmsdóttur og Rakel Hönnudóttur. Þær áttu einnig skínandi leik.

Það er erfitt að taka einhverja út úr liði Þór/KA. Liðið átti slakan dag og verður að taka á sig skellinn sem liðsheild. Þær eru komnar í bullandi fallbaráttu.

Hvað gekk illa?

Þór/KA fékk varla færi úr opnum leik. Þær fengu gott snemma leiks úr föstu leikatriði og hefðu getað jafnað metin en eftir það tók Breiðablik yfir leikinn. Varnarmenn Þór/KA munu svo líklega dreyma Sveindísi Jane í nótt því hún var alltaf að hlaupa þær uppi.

Hvað gerist næst?

Bæði lið eru á leið í landsleikjafrí. Þór/KA mætir FH á útivelli þann 26. september í algjörum fallbaráttuslag en Breiðablik spilar gegn ÍBV heima áður en það bíður úrslitaleikurinn gegn Val.

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira