Íbúar í Bretlandi sem ítrekað hlíta ekki sóttkví eftir að hafa verið í samskiptum við smitaðan einstakling geta átt von á sektum sem nema allt að tíu þúsund pundum, eða því sem samsvarar tæplega 1,8 milljónum íslenskum krónum á núverandi gengi. Önnur bylgja faraldursins er skollin á í landinu og hefur fjöldi nýgreindra ekki verið meiri frá því í vor.
Þetta tilkynnti Boris Johnson forsætisráðherra Bretlands í dag. Reglurnar taka gildi þann 28. september næstkomandi og gilda um alla þá sem hafa fengið staðfest kórónuveirusmit eða tilkynningu um að þeir hafi umgengist smitaðan einstakling.
„Fólk sem ákveður að hundsa reglurnar mun fá háar sektir,“ sagði Johnson í yfirlýsingu.
Sektir fyrir fyrstu brot munu nema um þúsund pundum, eða um 175 þúsund íslenskum krónum. Sektirnar fara svo hækkandi, en þeir vinnuveitendur sem hóta að reka starfsfólk sem kýs að vera í sóttkví geta einnig átt von á hæstu mögulegu sekt.
„Á meðan fólk gerir sitt besta í því að fylgja reglunum, þá vil ég ekki sjá að fólk sé í þeirri aðstöðu að það upplifi að það geti fjárhagslega ekki hlýtt tilmælum um einangrun,“ sagði Johnson.