Menntamálaráðherra mun funda á morgun með skólameisturum og rektorum á mennta- og háskólastigi. Boðað var til fundarins í dag eftir að nýjar samkomutakmarkanir voru tilkynntar.
Milla Ósk Magnúsdóttir, aðstoðarmaður Lilju Alfreðsdóttur mennta- og menningamálaráðherra, staðfesti í samtali við fréttastofu að boðað hefði verið til fundarins. Um væri að ræða samráðshóp sem hefði reglulega fundað frá því að kórónuveirufaraldurinn hófst.
Að sögn Millu verður farið yfir stöðu mála með tilliti til nýrra samkomutakmarkanna. Heilbrigðisráðuneytið tilkynnti í dag hertari aðgerðir innanlands sem taka gildi næstkomandi mánudag 5. október.
Vikið var frá tillögum sóttvarnalæknis varðandi 20 manna samkomubann í skólamálum, en í framhalds- og háskólum munu gilda 25 manna fjöldatakmarkanir og er þar miðað við algenga bekkjarstærð.
Áfram verður eins metra reglan í gildi og grímuskylda þar sem ekki er hægt að tryggja eins metra fjarlægð.