Þórunn Jónsdóttir, systir Jóns Þrastar Jónssonar, segir tengiliði fjöskyldunnar hjá lögreglunni á Íslandi og á Írlandi ekki kannast við þær upplýsingar sem koma fram í frétt Sunday Independent á Írlandi. Miðillinn fjallaði um hvarf Jóns Þrastar í dag og var fullyrt að Jón Þröstur hefði verið myrtur fyrir slysni af öðrum Íslending.
Vísir greindi frá frétt Sunday Independent í morgun en í henni segir að annar íslenskur maður, sem sagður er sitja í fangelsi fyrir þjófnað, muna hafa sett sig í sambandi við fjölskyldu Jóns og veitt þeim þessar upplýsingar. Þær voru sagðar til rannsóknar hjá lögreglunni á Íslandi.
„Fjölskyldan hefur heldur ekki fengið veður af þessum upplýsingum sem meintur uppljóstrari á að hafa komið til okkar í gegnum vinkonu sína og er fjallað um í fréttinni,“ skrifar Þórunn.
Karl Steinar Valsson, yfirlögregluþjónn hjá miðlægri rannsóknardeild lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu, svaraði fyrirspurn fréttastofu í morgun á þann veg að verið sé að skoða ýmsa þætti tengda rannsókninni. Haft var samband við fjölskyldu Jóns og kusu þau að tjá sig ekki.