Valskonur ná einni eða í mesta lagi tveimur æfingum saman fyrir leik sinn við HJK Helsinki í Meistaradeild Evrópu í fótbolta næstkomandi miðvikudag.
Sigurður K. Pálsson, framkvæmdastjóri Vals, sagði við Vísi í dag að leikurinn færi fram eins og áætlað var, hvort sem að áframhald yrði eða ekki á reglum sem banna íþróttir með snertingu á höfuðborgarsvæðinu. Þær reglur gilda til 3. nóvember en heilbrigðisyfirvöld hafa gefið leyfi fyrir leiknum, sem er á vegum UEFA með tilheyrandi kröfu um að allir sem taka þátt í honum fari í kórónuveirupróf.
Stór hluti Valsliðsins, eða sjö leikmenn, kemur til landsins í dag eftir að hafa verið með íslenska landsliðinu í Svíþjóð frá því í síðustu viku. Þessar sjö landsliðskonur þurfa að vera í fimm daga sóttkví áður en þær æfa með öðrum leikmönnum í Valsliðinu. Að sögn Sigurðar er hugsanlegt að liðið nái að æfa saman á mánudag en annars yrði æfing næsta þriðjudag eina æfing liðsins saman fyrir leikinn mikilvæga.
Of dýrt að borga hótel undir allan hópinn
Til stendur að þær íslensku landsliðskonur sem búa hér á landi, og koma til landsins í dag, æfi saman næstu daga í svokallaðri vinnusóttkví.
Ljóst er þó að undirbúningur Íslandsmeistaranna fyrir leikinn er ekki beint ákjósanlegur, og þegar þær finnsku mæta á Hlíðarenda verður mánuður liðinn síðan að Valur spilaði síðast leik.
Til greina kom fyrir Val að borga hótel og uppihald fyrir alla leikmenn og starfslið í vikutíma, hafa hópinn þannig einangraðan líkt og gert hefur verið með landsliðin, svo að allir leikmenn gætu æft saman. Kostnaðurinn við það hefði þó numið nokkrum milljónum króna og var talinn of hár að sögn Sigurðar.