Handbolti

Ísland á tvo markahæstu leikmenn þýsku deildarinnar í dag

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Landsliðsmennirnir Viggó Kristjánsson og Bjarki Már Elísson eru að gera góða hluti í þýsku deildinni en næstu leikur þeirra verður í íslenska landsliðsbúningnum.
Landsliðsmennirnir Viggó Kristjánsson og Bjarki Már Elísson eru að gera góða hluti í þýsku deildinni en næstu leikur þeirra verður í íslenska landsliðsbúningnum. Getty/Samsett

Íslensku landsliðsmennirnir Viggó Kristjánsson og Bjarki Már Elísson eru í dag í efstu tveimur sætunum á listanum yfir markahæstu leikmenn þýsku bundesligunnar í handbolta.

Viggó Kristjánsson og Bjarki Már Elísson voru báðir markahæstir hjá sínum liðum í gærkvöldi. Viggó Kristjánsson skoraði sjö mörk fyrir TVB Stuttgart í 30-24 heimasigri á hans gamla félagi DHfK Leipzig.

Bjarki Már Elísson skoraði líka sjö mörk þegar lið hans TBV Lemgo gerði 28-29 jafntefli við Göppingen á útivelli.

Viggó Kristjánsson er markahæsti leikmaður þýsku deildarinnar með 44 mörk í 6 leikjum eða 7,3 mörk að meðaltali í leik. Hann hefur tveggja marka forskot á Bjarka sem hefur einnig spilað sex leiki. Það eru síðan þrjú mörk í Svíann Niclas Ekberg sem á leiki inni á íslensku strákanna.

Viggó Kristjánsson hefur nýtt 63,8 prósent skota sinna en 17 af 44 mörkum hans hafa komið af vítalínunni. Hann hefur síðan skorað 20 mörk með langskotum og 4 mörk úr hraðaupphlaupum. Viggó hefur nýtt 94 prósent af vítaskotum sínum.

Bjarki Már Elísson hefur nýtt 66,7 prósent skota sinna og aðeins 7 af 42 mörkum hans hafa komið af vítalínunni. Bjarki hefur skorað langflest hraðaupphlaupsmörk í deildinni eða tuttugu en hann er síðan með 9 mörk úr horni, 3 mörk af línu og 2 með langskotum.

Bjarki þarf að bæta vítanýtingu sína en hún er aðeins 53,8% prósent í fyrstu sex umferðunum og Bjarki væri væntanlega markahæstur með betri vítanýtingu.

Bjarki Már varð markakóngur þýsku deildarinnar í fyrra en hann skoraði þá 216 mörk í 27 leikjum. Sigurður Valur Sveinsson (1984-85) og Guðjón Valur Sigurðsson (2005-06) hafa einnig náð því að verða markakóngar deildarinnar.

Næst á dagskrá hjá þeim félögum er að ferðast heim til Íslands til að spila með íslenska landsliðinu á móti Litháen í undankeppni EM. Sá leikur fer fram í næstu viku.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×