Viðskipti innlent

Mjólkur­sam­sölunni skipt upp og Pálmi nýr for­stjóri

Atli Ísleifsson skrifar
Ari Edwald og Pálmi Vilhjálmsson.
Ari Edwald og Pálmi Vilhjálmsson. MS

Eigendur og stjórn Mjólkursamsölunnar hafa ákveðið að skipta starfseminni upp í sjálfstæð félög í sömu eigu, sem sinni annars vegar innlendri og hins vegar erlendri starfsemi. 

Pálmi Vilhjálmsson aðstoðarforstjóri verður með breytingunni nýr forstjóri Mjólkursamsölunnar en Ari Edwald, sem gegnt hefur forstjórastöðunni síðustu ár, mun nú stýra erlendri starfsemi MS.

Þetta kemur fram í tilkynningu frá félaginu þar sem segir að breytingin sé rökrétt framhald á þeirri vegferð sem hófst um mitt ár 2018, þegar stofnað var sérstakt dótturfélag um erlenda starfsemi Mjólkursamsölunnar, Ísey útflutningur ehf.

„Var það gert bæði til að mæta áskilnaði í samningum ríkisins og bænda um fjárhagslegan aðskilnað innlendrar og erlendrar starfsemi, og einnig til að skerpa stjórnunarlegar áherslur og sýn á mismunandi verkefni.

Með breytingunni nú færast Ísey útflutningur og eignarhlutur í móðurfélagi Ísey Skyr Bars í félagið MS erlend starfsemi ehf. og eignarhlutur í bandaríska skyrfyrirtækinu Icelandic Provisions í félagið MS eignarhald ehf. Bæði þessi félög verða í eigu samvinnufélaganna Auðhumlu og Kaupfélags Skagfirðinga, eins og Mjólkursamsalan ehf.

Ari Edwald sem hefur verið framkvæmdastjóri Ísey útflutnings undanfarið rúmt ár, samhliða forstjórastarfi hjá Mjólkursamsölunni, mun hér eftir stýra MS erlendri starfsemi og MS eignarhaldi og alfarið sinna erlendri starfsemi.

Pálmi Vilhjálmsson, núverandi aðstoðarforstjóri, verður forstjóri Mjólkursamsölunnar,“ segir í tilkynningunni.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×