Innlent

Einn til viðbótar smitaður í Hvassaleiti

Hólmfríður Gísladóttir skrifar
Alls hafa níu smitast í hópsýkingunni í Hvassaleiti 56-58. Af þeim er einn látinn.
Alls hafa níu smitast í hópsýkingunni í Hvassaleiti 56-58. Af þeim er einn látinn. Vísir/Egill

Einn íbúi greindist með Covid-19 í skimun hjá 50 íbúum Hvassaleitis 56-58 í fyrradag. Ráðist var í skimunina eftir að átta einstaklingar, sex íbúar og tveir starfsmenn, smituðust í hópsýkingu í húsinu. Einn hinna greindu er látinn.

Um er að ræða íbúðir fyrir aldraða en að sögn Bryndísar Hreiðarsdóttur, starfandi verkefnastjóra félagsstarfs Reykjavíkurborgar sem rekið er á fyrstu hæð hússins, eiga tveir íbúar enn eftir að fara í skimun þar sem sóttkví þeirra lengdist.

Almannavarnir hafa ákveðið að aðrir íbúar séu lausir úr sóttkví en um 58 dveljast í húsinu.

„Við höldum smitvörnum áfram og höfum beðið íbúa að fara varlega,“ segir Bryndís um framhaldið. Félagsstarfið verður lokað a.m.k. út þessa viku en fólk á þess ennþá kost að fá mat sendan heim. Þá er heimaþjónusta með hefðbundnum hætti.

Að sögn Bryndísar eiga einhverjir starfsmenn enn eftir að fá niðurstöður úr skimunum.

„En við vonum bara að þetta sé búið.“

Uppfært kl. 14.30:

Félagsstarfið verður lokað út næstu viku.


Tengdar fréttir

Átta smitaðir í hópsýkingu í Hvassaleiti

Átta hafa greinst með Covid-19 í hópsýkingu sem kom upp í íbúðum fyrir eldri borgara í Hvassaleiti í síðustu viku. Tekin verða sýni hjá öllum íbúum á morgun.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×