Dæmi eru um að börn fái sjálfsvígshuganir eftir að nektarmynd af þeim fer í dreifingu á netinu. Verkefnastjóri Hjálparsíma Rauða krossins segir nokkuð algengt að börn í slíkri stöðu hafi samband.
Í Kompás sem birtist í gær kemur fram að börn niður í sjö ára aldur sendi af sér nektarmyndir og algengt sé að myndirnar fari í dreifingu.
Sandra Björk Birgisdóttir, verkefnastjóri hjálparsíma Rauða krossins, segir slík mál koma á þeirra borð.
![](https://www.visir.is/i/658996DDF992F782ACE1134F7AF8568CA9E5FB6AC60F30138DB6A65E5145FDE6_713x0.jpg)
„Þetta er frekar algengt og er reglulega að koma inn til okkar. Þetta er miklu algengara en fólk gerir sér grein fyrir og þetta er allt niður í mjög ung börn. Ég held að fólk geri sér ekki grein fyrir hversu alvarlegt þetta er, hversu mikið er um þetta og hvað þetta hefur alvarlegar afleiðingar í för með sér,“ segir Sandra.
Bönin sem hafi samband við Hjálparsímann séu allt niður í tólf ára gömul og líði mjög illa.
„Þau upplifa að það sé ómögulegt að ná yfir þetta og koma í veg fyrir að myndirnar fari í frekari dreifingu eða að fjarlægja þær,“ segir hún og bætir við að stundum sé þetta orðið svo alvarlegt að þau séu farin að skaða sig.
„Og svo upplifa þau líka sjálfsvígshugsanir.“
Eins og kemur fram í Kompás eiga börn oft mjög erfitt með að segja frá myndunum og dreifingunni því þau kenna sjálfum sér um. En oft er fyrsta skrefið að hringja í hjálparsímann þar sem er nafnleysi og trúnaður.
„Og þá kannski eftir okkar samtal treysta þau sér frekar að ræða við einhvern eða við hjálpum þeim að tilkynna í gegnum ábendingarlínu Barnaheilla,“ segir Sandra Björk.
Hér má sjá Kompásþáttinn um kynferðisofbeldi gegn börnum á netinu.