Óveðurslægð gærdagsins er komin norður fyrir land og fjarlægist. Íbúar sunnan- og vestantil á landinu sitja þó eftir í stífri suðvestanátt, 10 til 18 metrum á sekúndu og með éljagangi. Þó er bjart veður á Norðaustur- og Austurlandi, en hitinn á landinu verður á bilinu 0 til 5 stig.
Lögregla á höfuðborgarsvæðinu segir að hún hafi þurft að sinna nokkrum útköllum vegna veðurs í gærkvöldi og í nótt, en þó ekkert stórfenglegt.
Í hugleiðingum veðurfræðings segir að á morgun fari ný lægð til norðausturs fyrir vestan land, en hún sé mun vægari.
„Vindátt verður áfram suðlæg og vindstyrkur á bilinu 8 til 15 m/s víðast hvar. Rigning eða slydda sunnan- og vestanlands, annars skýjað en þurrt.
Á sunnudag er útlit fyrir heldur hægari vind og litla sem enga úrkomu, en á mánudag er búist við suðaustanátt með rigningu og hlýnandi veðri,“ segir í hugleiðingum veðurfræðings.

Veðurhorfur á landinu næstu daga
Á laugardag: Sunnan og suðvestan 8-15 m/s og rigning eða slydda, en þurrt NA- og A-lands. Hiti 1 til 7 stig.
Á sunnudag: Suðlæg átt, 5-13 m/s. Bjartviðri N- og A-lands, en skýjað og dálítil væta öðru hverju á S- og V-landi. Hiti 3 til 8 stig, en í kringum frostmark NA-til á landinu.
Á mánudag: Suðaustanátt og rigning, en úrkomulítið N-lands. Hiti yfirleitt 5 til 10 stig.
Á þriðjudag, miðvikudag og fimmtudag: Suðlæg eða breytileg átt og rigning eða slydda með köflum. Hiti 1 til 7 stig.