Julien Lenglet, forstjóri sjúkrahússins Hôpital privé d'Antony í París, hefur hvatt til þess að hátíðahöldum vegna jóla og áramóta verði öllum aflýst í ár vegna áhrifa heimsfaraldurs kórónuveirunnar á franskt samfélag.
„Ég myndi segja að við verðum að aflýsa jólum og áramótum, án nokkurs vafa,“ sagði Lenglet í samtali við útvarpsstöðina RMC.
Forstjórinn segir að hefðbundið hátíðarhald í tengslum við jól og áramót í Frakklandi gæti leitt til „gríðarstórs“ kórónuveiruklasasmits þar sem veiran myndi dreifast stjórnlaust milli ættliða og leiða til mikillar, þriðju bylgju faraldursins í landinu.
Í lok október kom franska ríkisstjórnin í annað sinn á mjög hörðum takmörkunum, nær algerri lokun landsins, í þeirri von að hefta útbreiðsluna.
Stjórnmálamenn hafa margir réttlætt ákvörðunina um hertar aðgerðir með því að þá væri mögulega hægt að halda nokkuð hefðbundin jól.
Alls hafa 1,8 milljónir manna greinst með kórónuveirusmit í Frakklandi frá upphafi faraldursins. Einungis er fjöldinn hærri í Bandaríkjunum, Indlandi, Brasilíu og Rússlandi. Rúmlega 41 þúsund manns hafa látist af völdum Covid-19 í Frakklandi frá upphafi faraldursins.