Reykjavíkurborg hefur gert heildaruppfærslu á aðalskipulagi borgarinnar þegar kemur að íbúðabyggð. Borgarlínan er eitt meginstefið en í aðalskipulagi eru skilgreind yfir 100 svæði sem ætluð eru fyrir nýja íbúðarbyggð, þar af um 25 ný svæði sem boðuð eru í breytingartillögunum. Lagt er til að byggðar verði minnst 1.000 íbúðir á ári að meðaltali til ársins 2040 og að um 25% verði á vegum húsnæðisfélaga sem ekki eru rekin í ágóðaskyni.
„Við erum að horfa á áframhaldandi uppbyggingu íbúðarhúsnæðis í Reykjavík. Ég held að fólk geri sér ekki grein fyrir því að uppbygging sitt hvoru megin við Elliðaósanna er á stærð við Grafarvog,“ segir Pawel Bartoszek forseti borgarstjórnar og varaformaður skipulags-og samgönguráðs.
Í breytingartillögunni kemur fram að stefnt sé að því að hlutdeild einkabílsins í öllum ferðum verði komin undir 50% árið 2040. Mikil áhersla er lögð á almenningssamgöngur.
„Við leggjum áherslu á að byggja meðfram borgarlínunni innan núverandi vaxtarmarka,“ segir Pawel.
Breytingarnar verða kynntar á streymisfundi borgarinnar á miðvikudaginn en hægt verður að gera athugasemdir við þær til 27. nóvember.
Við reiknum með því að þessi breytingatillaga verði afgreitt og samþykkt einhvern tíma eftir áramót. Úthlutun lóða við Ártúnshöfða er ekki hafin en hún fer af stað um leið og skipulagsferlið fer í gang,“ segir Pawel.