Gunnar Einarsson hefur verið ráðinn þjálfari Víkings frá Ólafsvík í Lengjudeild karla. Hann tekur við liðinu af Guðjóni Þórðarsyni.
Gunnar er 44 ára og skrifar undir tveggja ára samning en hann stýrði Kára í 2. deild á nýliðnu keppnistímabili og hafði áður þjálfað Leikni og yngri flokka Vals. Í tilkynningu frá Ólafsvíkingum segir að Gunnar sé spennandi ungur þjálfari.
Gunnar átti farsælan feril sem leikmaður og varð Íslandsmeistari fjórum sinnum, þrisvar með KR og einu sinni með Val. Hann lék einnig sem atvinnumaður í Hollandi og á einn A-landsleik fyrir Íslands hönd.