Nokkur gangur mun hafa verið í viðræðum milli Landsvirkjunar og Rio Tinto varðandi endurskoðun þess raforkuverðs sem síðarnefnda fyrirtækið greiðir í tengslum við framleiðslu sína í Straumsvík. Í Morgunblaðinu í dag er fullyrt að vonir séu bundnar við að samkomulag um verulega lækkun orkuverðsins náist nú þegar fyrir áramót og herma heimildir blaðsins að raforkuverðið til verksmiðjunnar kunni að lækka um þrjátíu prósent.
Allt frá því í vor hefur álverksmiðjan í Straumsvík keyrt á lágmarksafköstum og þannig aðeins keypt það lágmark sem henni ber af raforku frá Landsvirkjun, og hefur framleiðslan því aðeins verið um 85% af því sem áætlanir gera almennt ráð fyrir.
Í blaðinu segir að í samningaviðræðum hafi komið fram fram að Rio Tinto muni ekki auka framleiðslu sína fyrr en samkomulag við Landsvirkjun sé í höfn.