Kórónuveirusmit sem rakið var til verslunarmiðstöðva reyndist vera smit sem kom upp hjá starfsfólki á skrifstofu við Kringluna. Þetta staðfestir Jóhann K. Jóhannsson, upplýsingafulltrúi almannavarnadeildar ríkislögreglustjóra, í samtali við Vísi.
Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir sagði á upplýsingafundi almannavarna í morgun að smit mætti rekja til verslunarmiðstöðva. Rögnvaldur Ólafsson deildarstjóri hjá almannavarnadeild ríkislögreglustjóra, sagði í viðtali við Vísi eftir fundinn að starfsfólk í Kringlunni hefði veikst.
Jóhann segir í samtali við Vísi að tveir starfsmenn á skrifstofum við Kringluna hefðu veikst af Covid-19. Smitrakning stæði enn yfir en ekkert sem bendi til þess að smitið tengist verslunarrekstri í Kringlunni.
Jóhann minnir á að smit geti komið upp allstaðar þar sem hópamyndanir eru og að fólk hugi að einstaklingsmiðuðum sóttvörnum til að koma í veg fyrir smit.