Fyrirspurn um þetta var lögð fyrir bæjarstjórn Hafnarfjarðar og hefur skipulags- og byggingarráð tekið jákvætt í erindið. Fréttablaðið greindi fyrst frá málinu.
Samkvæmt hugmyndunum yrði byggt við húsið vestan og norðan við Súfistann. Á jarðhæðinni yrði þá „lítil mathöll með 4-5 veitingastöðum og sameiginlegu rými fyrir 80 gesti.“ Segir að aðgengi að mathöllinni yrði frá Strandgötu og Ráðhústorgi en inngangur fyrir íbúðir – fimm á annarri hæð og fjórar á þeirri þriðju – á bakhlið hússins.
Áður hafa verið uppi hugmyndir að byggja við húsið þó að þessi hugmynd myndi fela í sér meira byggingamagn og fleiri íbúðir á efri hæðum.

Gæti orðið lyftistöng fyrir mannlífið
Í fyrirspurninni segir að mathöllin sé hugsuð sem skemmtileg viðbót í veitingahúsaflóruna í Hafnarfirði, og að hún gæti orðið mikil lyftistöng fyrir mannlífið í miðbænum.
„Nokkrir veitingastaðir sem hafa getið sér gott orð, bæði hér í Hafnarfirði og annars staðar á höfuðborgarsvæðinu hafa lýst yfir áhuga á að vera með í þessu verkefni, og hugmyndin er að bjóða upp á svipaða blöndu veitingastaða og er t.d. á mathöll við Hlemm.
Fyrstu drög gera ráð fyrir 2 kjarnastöðum í miðju rými, og 2-3 stöðum sem þurfa minna pláss að auki. Sæti fyrir 85 manns verða í sameiginlegu rými milli veitingastaðanna, og einnig verður gert ráð fyrir take-away. Gert er ráð fyrir að flestir geti fengið eitthvað við sitt hæfi í mathöllinni sem hugmyndin er að blanda saman “fine dining”, kaffihúsi, bakaríi, eðal pizzum og smáréttastöðum í notalegu umhverfi. Vínveitingar verða í húsinu, en afgreiðslutími verður sá sami og á Súfistanum í dag, eða til kl. 11,“ segir í fyrirspurninni.