Í nokkra mánuði hefur Vladimir Putin Rússlandsforseta verið tíðrætt um það hve lág dánartíðnin af völdum covid-19 hafi verið í landinu. Fyrr í þessum mánuði hélt hann því til að mynda fram að Rússum hafi tekist betur til en vestrænum ríkjum við að ná stjórn á faraldrinum að því er segir í umfjöllun Guardian.
En síðan á fyrri stigum faraldursins hafa sérfræðingar lýst efasendum um áreiðanleika þeirra upplýsinga sem komið hafa frá þarlendum stjórnvöldum, sem hafi reynt að gera minn úr alvarleika faraldursins í Rússlandi.
Í dag viðurkenndu rússneskir embættismenn að það væri rétt að staðan væri mun alvarlegri en áður hafi verið haldið fram.
Að sögn Rosstat-tölfræðistofnunarinnar hafði tala látinna í landinu, óháð dánarorsök, á tímabilinu janúar til nóvember hækkað um 229.700 milli ára. „Yfir 81% af þessari aukningu er tilkomin vegna covid,“ er haft eftir Tatiönu Golikovu, varaforsætisráðherra. Það þýðir að yfir 186 þúsund Rússar hafa látist úr covid-19, en ekki rúmlega 55 þúsund líkt og fyrri tölur sögðu til um.
Rússnesk heilbrigðisyfirvöld höfðu skráð yfir þrjár milljónir tilfelli staðfestra smita síðan við upphaf faraldursins sem setur Rússland í fjórða sæti yfir þau ríki þar sem flest tilfelli hafa verið staðfest. Aftur á móti höfðu aðeins verið skráð rúmlega 55 þúsund dauðsföll, sem benti til þess að dánartíðni væri töluvert lægri en í öðrum ríkjum sem hafa orðið illa úti í faraldrinum.
Þá hafa Rússar sætt gagnrýni fyrir að telja aðeins dauðsföll, sem staðfest hafa verið með krufningu, sem dauðsföll af völdum covid-19.