Romanov vakti mikla athygli fyrr á árinu þegar hann afneitaði tilvist Covid-19, og gagnrýndi rússnesku rétttrúnaðarkirkjuna harðlega fyrir það að loka kirkjum vegna faraldursins.
Hann tók svo yfir stjórn Srednerualskyklaustursins í Úralfjöllum í júní og neitaði að yfirgefa það ásamt stuðningsmönnum sínum. Þar hefur Romanov haldið messur, þvert á vilja forsvarsmanna kirkjunnar en að endingu var hann bannfærður úr kirkjunni í september.
Lögregluþjónar réðust til atlögu gegn Romanov eftir að hann birti myndband á Youtube þar sem hann hvatti fólk til að „deyja fyrir Rússland“, samkvæmt TASS fréttaveitunni, sem er í eigu rússneska ríkisins. Kallaði hann eftir því að fólk færi í kirkju og hunsaði þenna „falska faraldur“.
TASS segir einnig að gamlar fréttir vísi til þess að Romanov hafi verið dæmdur til þrettán ára vistar í fanganýlendu árið 1986 fyrir að brjótast inn hjá og myrða kennara. Eftir að honum hafi verið sleppt hafi hann gerst prestur.
Romanov var fluttur til Moskvu í dag þar sem hann var færður fyrir dómara.
Samkvæmt rússneskum miðlum sem Reuters vitnar í hefur Romanov verið ákærður fyrir að hvetja ólögráða aðila til sjálfsvíga.
Hér má sjá sjónvarpsfrétt Reuters með myndefni frá áhlaupi lögreglunnar.