Handbolti

Kórónuveirufaraldurinn fækkaði valmöguleikunum hjá Grétari sem leist best á Nice

Anton Ingi Leifsson skrifar
Grétar Ari í leik í vetur.
Grétar Ari í leik í vetur. vísir/bára

Grétar Ari Guðjónsson er á leið til Frakklands en hann hefur samið við franska B-deildarliðið Nice eins og kom fram á Vísi í gær. Grétar er spenntur fyrir tímanum í Frakklandi.

Grétar hefur verið einn albesti markvörður Olís-deildarinnar undanfarin ár en hann hefur verið aðalmarkvörður Hauka undanfarin tvö ár.

„Það var frekar stuttur aðdragandi að þessu. Þetta kom dálítið upp úr engu og það var ekki úr miklu að moða svo ég var mjög ánægður að þetta hafi gerst,“ sagði Grétar er Henry Birgir Gunnarsson ræddi við hann í dag.

„Þetta er klúbbur sem hefur verið að taka sig í gegn. Þeir eru mikið að vinna með unga leikmenn og ætla að byggja upp unga leikmenn og selja þá upp í efstu deild í Frakklandi eða annars staðar,“ sagði Grétar. Hann vonast til þess að taka næsta skref eftir tímann hjá Nice.

„Ég ætla að vona það. Það er draumurinn. Ég held að fyrir mig sem markvörður að það sé nauðsynlegt að koma í deild sem er kannski ekkert miklu sterkari en sem er meira virt heldur en sú íslenska. Að það sé auðveldara, ef þú stendur þig þarna, þá ferðu lengra. Hér heima þá er það happa glappa.“

Markvörðurinn knái segir að það hafi verið nokkrir valmöguleikar í stöðunni en Frakkarnir hafi heillað.

„Það hafa verið nokkrir valmöguleikar hér og þar en eftir að ástandið kom upp þá hefur þeim farið fækkandi. Það var úr einhverju smá að velja en mér fannst þessi kostur töluvert betri en aðrir.“

Viðtalið í heild sinni má sjá hér að neðan.

Klippa: Sportið í dag - Grétar Ari í viðtali

Sportið í dag er á dagskrá á Stöð 2 Sport alla virka daga klukkan 15.00. Upptökur af fyrri þáttum má nálgast á sjónvarpsvef Stöðvar 2. Stöð 2 Sport er hluti af Sportpakkanum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×