Erlent

Staðfest smit orðin fleiri í Rússlandi en Kína

Kjartan Kjartansson skrifar
Sjúkraliðar í hlífðarklæðnaði við Pokrovskaja-sjúkrahúsið í Pétursborg í dag.
Sjúkraliðar í hlífðarklæðnaði við Pokrovskaja-sjúkrahúsið í Pétursborg í dag. Vísir/EPA

Rúmlega 87.000 manns hafa nú greinst með nýtt afbrigði kórónuveiru í Rússlandi og eru staðfest smit þar nú orðin fleiri en í Kína ef marka má opinberar tölur. Vladímír Pútín forseti hefur ekki gefið út hvort að útgöngubann verði framlengt.

Tilkynnt var um tæplega 6.200 ný smit í dag og hafa þá 87.147 greinst smitaðir frá upphafi faraldursins. Af þeim hafa 784 látið lífið. Í Kína, þar sem faraldurinn blossaði fyrst upp í desember, hafa yfirvöld sagt að 82.830 hafi smitast.

Útgöngubann hefur verið í gildi í Rússlandi frá 25. Mars en það á að renna úr gildi á fimmtudag, 30. apríl, að sögn Reuters-fréttastofunnar. Anna Popova, yfirmaður velferðarstofnunar Rússlands, sagði í dag að takmarkanir þyrftu að vera áfram í gildi til 12. maí.

Míkhaíl Mishushin, forsætisráðherra, hefur beðið ráðherra sína um að leggja fram tillögur um hvernig skuli slaka á takmörkunum sem gilda um fyrirtæki fyrir fimmtudaginn. Fjöldi fyrirtækja segist á barmi gjaldþrots ef höftin verða áfram við lýði.


Tengdar fréttir

Rússar vakna við vondan draum

Staðfest tilfelli Covid-19, sjúkdómsins sem nýja kórónuveiran veldur, eru nú 2.337 í Rússlandi. Þeim fjölgaði um minnst 500 á milli daga og hefur fjölgunin aldrei verið meiri.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×