Kim Jong-un, einræðisherra Norður-Kóreu, mætti í gær á opnunarathöfn áburðarverksmiðju í útjaðri Pyongyang en hann hafði ekki sést opinberlega í tuttugu daga og héldu margir að Kim væri alvarlega veikur eða jafnvel fallinn frá vegna fjarveru sinnar.
Í gær bárust fregnir um að hann hafi verið viðstaddur við opnunarathöfnina með systur sinni en ekki var hægt að staðfesta það þar sem engar myndir höfðu birst.

Á myndefninu sem birt var af norðurkóreskum yfirvöldum í morgun af einræðisherranum virtist hann hinn hressasti. Engin merki virðast um að hann hafi verið veikur.
Sögur af hinum meintu veikindum eða jafnvel dauða Kim hafa verið háværar undanfarna daga en leiðtoginn sást síðast opinberlega þann 12. apríl síðastliðinn.

Sögusagnirnar fóru á kreik eftir að hann missti af afmælishátíð afa síns, Kim Il-Sung, sem haldin er hátíðlega þann 15. apríl ár hvert enda ein mikilvægasta hátíð landsins.