Í ræðunni sagði Kim einnig að vandi Norður-Kóreu væri fordæmalaus og sá versti í sögu ríkisins.
KCNA, ríkismiðill einræðisríkisins, hefur eftir Kim að aukin sjálfbærni sé nauðsynleg í Norður-Kóreu og þeir sigrar sem hafi unnist megi ekki tapast og þau mistök sem hafi átt sér stað megi ekki endurtaka sig.
Flokksþingið er einn stærsti áróðursviðburður Norður-Kóreu en sérfræðingar sem AP fréttaveitan hefur rætt við segja ólíklegt að lausn við vandamálum ríkisins finnist þar. Þau stafi nánast öll af ömurlegri efnahagsstjórn undanfarinnar áratuga og kostnaðarsamri kjarnorkuvopnaáætlun sem Kim hefur lagt gífurlega áherslu á.
Þar að auki hafa umfangsmiklar viðskiptaþvinganir verið lagðar á Norður-Kóreu vegna þeirrar kjarnorkuvopnaáætlunar.
Sjá einnig: Nýtt flokksþing í skugga efnahagsvandræða
Kim hefur þrisvar sinnum fundað með Donald Trump, fráfarandi forseta Bandaríkjanna, en þær viðræður hafa litlum árangri skilað. Norður-Kóreumenn krefjast þess að losna við þvinganir áður en þeir taka skref í átt að afvopnun en það hafa Bandaríkjamenn ekki viljað og kalla þeir eftir því að einræðisstjórn Kim láti fyrst af vopnum sínum.
Samvkæmt Yonhap fréttaveitunni nefndi Kim hvorki Bandaríkin né Suður-Kóreu í ræðu sinni og hefur hann ekki enn tjáð sig um sigur Joe Biden í forsetakosningum síðasta árs.
Í frétt AP segir þó að Biden, sem tekur við embætti þann 20. janúar, muni líklega viðhalda þvingunum gegn Norður-Kóreu þar til skref í átt að afvopnun verði tekin.