Handbolti

Hannes hættir og Spánverji sagður taka við

Sindri Sverrisson skrifar
Hannes Jón Jónsson stýrir Bietigheim út þessa leiktíð en hættir í sumar.
Hannes Jón Jónsson stýrir Bietigheim út þessa leiktíð en hættir í sumar. mynd/sgbbm.de

Hannes Jón Jónsson hættir í sumar sem þjálfari þýska handknattleiksfélagsins Bietigheim. Þetta var tilkynnt á vef félagsins í kjölfar fjórða sigurs liðsins í röð.

Samkvæmt Bastian Spahlinger, framkvæmdastjóra Bietigheim, er um sameiginlega niðurstöðu að ræða. Gengi Bietigheim hefur verið ágætt undir stjórn Hannesar en ekki er ljóst hvað tekur við hjá honum.

Spánverjinn Iker Romero er samkvæmt Stuttgarter Nachrichten líklegur til að taka við af Hannesi. Romero, sem er fertugur og var um árabil burðarás í spænska landsliðinu, hefur verið aðstoðarþjálfari Hannover-Burgdorf frá árinu 2017 en aldrei starfað sem aðalþjálfari.

Hannes tók óvænt við Bietigheim í febrúar 2019 eftir að hafa áður samið um að taka við liði Selfoss þegar Patrekur Jóhannesson léti af störfum um sumarið það ár. Hannes varð því að gefa það starf frá sér.

Bietigheim var í fallsæti í efstu deild þegar Hannes tók við liðinu en náði sér betur á strik undir stjórn hans. Liðið féll þó á endanum á markatölu.

Á síðustu leiktíð var Bietigheim í 3. sæti næstefstu deildar, tveimur stigum frá 2. sæti, þegar tímabilið var flautað af vegna kórónuveirufaraldursins. Tvö efstu liðin fóru upp. Nú er liðið hins vegar í 6. sæti með 16 stig, níu stigum á eftir Gummersbach sem er í 2. sæti.

Einn Íslendingur er í leikmannahópi Bietigheim en það er markvörðurinn Aron Rafn Eðvarðsson.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×