Þetta kemur fram í umfjöllun BBC um Sadpara, sem er Pakistani.
Þar segir að sérfræðingar séu á einu máli um að hættan sé mest á niðurleið, þar sem eitt feilspor getur sent menn niður í djúpið dimma. Þeir sem þekkja Sadpara draga hins vegar í efa að hann myndi gera slík mistök og telja líklegra að eitthvað hafi hent samferðamenn hans.
BBC hefur eftir þorpsbúum að oftar en einu sinni hafi geitur sem Sadpara var að sinna meiðst og hann borið þær niður fjallið í stað þess að aflífa þær, eins og venja er.
Þrátt fyrir að meira en vika sé liðin frá því að síðast heyrðist til félaganna bíður fólk enn eftir kraftaverki.
„Það var í síðasta skipti sem ég sá þá“
Sajid Sadpara, sonur Ali, segir hins vegar litlar líkur á því að mennirnir séu enn á lífi.
Í samtali við BBC segir hann frá því hvernig 25 til 30 lögðu af stað á fjallið en að allir hefðu snúið við áður en komið var í 8.000 metra hæð.
Þá greinir hann frá síðustu samskiptum sínum við föður sinn.
„Ég kallaði að kúturinn væri lekur. Hann sagði: „Ekki hafa áhyggjur, haltu áfram að klifra, þér mun líða betur.“ En ég hafði ekki styrk til þess og ákvað að snúa við. Það var um hádegi á föstudeginum. Það var í síðasta skipti sem ég sá þá.“
Spurður að því hvers vegna faðir hans ákvað að halda áfram svarar Sajid: „Nepalarnir höfðu gert þetta viku áður og hann vildi gera það líka, því K2 er fjallið okkar.“
Vildi skjóta Nepölunum ref fyrir rass
Nepalarnir sem um ræðir voru þeir fyrstu sem náðu á topp K2 að vetrarlagi.
Sajid segir allar líkur á að faðir hans, John Snorri og Juan Pablo Mohr hafi náð toppnum en BBC spyr að því hvers vegna hann var ákveðinn í því að gera það án súrefnis.
Ein kenning gengur út á að Sadpara hafi gert það þar sem hann var samningsbundinn til að fylgja John Snorra en BBC hefur eftir blaðamanninum Nisar Abbas, sem einnig er vinur Sadpara, að það sé vitleysa.
Sadpara hafi hreinlega viljað feta í fótspor Nepalana og gott betur.
„Hann hafði líkamsbyggingu og ávana íþróttamanns og var líka góður námsmaður. Hann féll aldrei í neinu fagi. Þar sem eldri bróður hans gekk ekki vel í skóla var faðir hans áhugasamur um að hann fengi góða menntun og það var þess vegna sem hann flutti hann til Skardu,“ segir Abbas.
Annar vinur, Hamid Hussain, minnist Sadpara einnig með hlýju.
„Hann var hugrakkur, þægilegur og afar vinalegur.“