Þetta kom fram í máli Kristínar Jónsdóttur, hópstjóra vöktunar og náttúruvár hjá Veðurstofu Íslands, á upplýsingafundi sem efnt var til í dag þegar bera fór á óróapúlsi suður af Keili á Reykjanesi. Óróapúls, sem er samfelld hrina smærri skjálfta, hefur gjarnan mælst í aðdraganda eldgosa en ekkert bendir þó til þess að gos sé hafið.
„Miðað við þessi líkön sem við höfum verið að keyra, og þá erum að taka með hvernig vindar hafa blásið á þessu svæði síðustu tíu ár, miða við bestu þekkingu um eldgos sem verða á þessu svæði og hversu mikil gasmengun kemur upp, þá eru ekki miklar líkur á að þetta verði neitt hættulegt.
Þetta verður kannski óþægilegt einhverja daga en við sjáum miðað við það sem við höfum verið að skoða að okkar reikningar benda ekki til þess að við þurfum að hafa miklar áhyggjur af þessu,“ sagði Kristín.
Einnig kom fram í máli Kristínar að erfitt væri að segja til um hversu lengi eldgos gæti staðið yfir en ein til tvær vikur væri þó líklegur tími. Þá sé möguleiki á því að fleiri goshrinur komi í kjölfar þeirrar fyrstu.
Horfa má á upplýsingafundinn í heild sinni hér fyrir neðan.
Auknar líkur á stórum skjálftum
Kristín sagði að almennt þegar eldgos hefjist verði oft jarðskjálftar þegar kvikan er að brjóta sér leið til yfirborðs. Auknar líkur séu því á stærri jarðskjálftum á Reykjanesskaga á meðan umbrotin eru í gangi og möguleiki á því að skjálftar þar nái allt að 6 að stærð og allt að 6,5 austar hjá Bláfjöllum.
Útreikningar eldfjalla- og náttúruvárhóps Háskóla Íslands sýna að líklegast sé að hraun frá eldgosi sem er mögulega að hefjast sunnan af Keili renni til suðurs.
Áður hefur komið fram að ein möguleg sviðsmynd geri ráð fyrir litlu til meðalstóru flæðigosi á þessu svæði sem muni ekki ógna byggð.