Ásdís, sem er nítján ára, leikur í stöðu leikstjórnanda. Hún hefur leikið með meistaraflokki Vals undanfarin þrjú tímabil og var í Valsliðinu sem vann þrefalt fyrir tveimur árum.
„Ásdís er gríðarlega hæfileikarík og þarf að þróast í öðru umhverfi og stærri deild. Hún hefur verið fastamaður í besta liði Íslands og unnið titla þar. Til að taka næsta skref á ferlinum þarf hún meiri samkeppni og spila í erfiðari deild og við getum boðið upp á það hjá Lugi,“ segir Kenneth Andersson, þjálfari Lugi. „Við teljum Ásdísi vera óslípaðan demant sem passar fullkomlega inn í okkar unga lið.“
Ásdís skoraði fjögur mörk þegar Valur rúllaði yfir FH, 33-14, í Olís-deildinni í gær.
Hún hefur alls skorað 24 mörk í tólf deildarleikjum á tímabilinu og gefið tíu stoðsendingar.