Erlent

Bann við hjóna­böndum sam­kynja para stangast á við stjórnar­skrá

Atli Ísleifsson skrifar
Litið er á dóminn sem féll í Sapporo sem táknrænan sigur fyrir aðgerðasinna hinsegin fólks í Japan.
Litið er á dóminn sem féll í Sapporo sem táknrænan sigur fyrir aðgerðasinna hinsegin fólks í Japan. AP/Yohei Fukai

Dómstóll í Japan hefur dæmt að það stangist á við stjórnarskrá landsins að hjónabönd samkynja para hafi enn ekki verið heimiluð af hálfu hins opinbera.

BBC segir frá því að stjórnarskrá Japans skilgreini hjónaband á þann veg að það eigi við um „bæði kyn“. Héraðsdómstóll í Sapporo hefur hins vegar nú túlkað lögin á þann veg að núgildandi reglur svipti samkynja pörum stjórnarskrárvarinn rétt til jafnréttis. Litið er á dóminn sem táknrænan sigur fyrir aðgerðasinna hinsegin fólks.

Japan er eina ríkið innan ríkjahóps G7 þróaðra ríkja þar sem hjónabönd samkynja para eru ekki heimiluð.

Dómsmálið er liður í röð dómsmála sem hópur samkynja para rak fyrir fjölda dómstóla víðs vegar um landið þar sem farið er fram á miskabætur vegna andlegs tjóns.

Dómstóllinn í Sapporo hafnaði kröfu stefnenda um miskabætur upp á milljón jena, um 1,2 milljónir íslenskra króna, fyrir að hafa verið neitað um sömu réttindi og gagnkynhneigð pör. Dómstóllinn dæmdi þó að með því að neita samkynja pröum um að ganga í hjónaband væri verið að brjóta stjórnarskrá.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×