Guðbjörg hefur ekki leikið með landsliðinu síðan á Þjóðhátíðardaginn 2019, eða í tæp tvö ár. Hún eignaðist tvíbura í janúar 2020 og hefur lítið spilað undanfarin tvö ár. Guðbjörg gekk í raðir norska úrvalsdeildarliðsins Arna-Björnar frá Djurgården í byrjun þessa árs.
Guðbjörg var ekki valin í fyrsta landsliðshóp Þorsteins og á blaðamannafundi í dag var hann spurður út í markvörðinn reynda.
„Hún var meidd um daginn en er komin af stað aftur. Það eru engir leikir og ekki neitt í gangi í Noregi. Ég met það þannig að hún þurfi að komast í gang og spila reglulega til að ýta á sæti í landsliðinu,“ sagði Þorsteinn.
„Hún þarf að spila og gera vel. Ég skoða hana ef hún spilar vel og þrýstir á okkur. Þá á hún að sjálfsögðu möguleika á að vera valin.“
Guðbjörg hefur leikið 64 landsleiki og lék með Íslandi á EM 2009, 2013 og 2017.