Innlent

Allt að 37 prósenta verðmunur á páskaeggjum

Elísabet Inga Sigurðardóttir skrifar
Bónus var oftast með lægsta verðið á páskaeggjum og Hagkaup með það hæsta.
Bónus var oftast með lægsta verðið á páskaeggjum og Hagkaup með það hæsta. Vilhelm Gunnarsson

Bónus var oftast með lægsta verðið á páskaeggjum og Hagkaup með það hæsta samkvæmt verðkönnun verðlagseftirlits ASÍ á matvöru og páskaeggjum sem gerð var þann 25. mars.

Krónan var í mörgum tilfellum nálægt Bónus í verði og munaði oft einungis einni krónu á verði.

Mesti munur á hæsta og lægsta verði var hjá Góu páskaeggi númer fjögur eða 37 prósent. Eggið kostaði 1.098 krónur í Bónus en 1.499 krónur í Hagkaup og Iceland.

77 prósenta verðmunur á ýsuflökum

Hagkaup var oftast með hæsta verðið á matvöru og annarri heimilisvöru. Heimkaup var með lægsta verðið í 37 tilvikum en Bónus næst oftast, í 33 tilvikum.

Í mörgum tilfellum var mikill munur á hæsta og lægsta kílóverði í flokki kjöt- og mjólkurvara. 

40 prósenta munur var á kílóverði af stóru stykki af góðosti. Lægst var verðið í Nettó og Iceland en hæst í Fjarðarkaupum.

„Einnig var mikill verðmunur á fiski en 77% munur var á hæsta og lægsta verði á frosnum, beinlausum ýsuflökum. Lægst var verðið í Bónus, 1.298 kr. en hæst í Fjarðarkaupum, 2.292 kr.“ segir í tilkynningunni.

Í könnuninni var hilluverð á 112 vörum skráð niður en það er það verð sem neytandinn hefur upplýsingar um þegar hann ákveður hvort hann ætli að kaupa viðkomandi vöru. Ef afsláttur er tekinn fram á hillu er hann tekinn til greina. 

Könnunin var framkvæmd í eftirtöldum verslunum: Nettó Lágmúla, Bónus Flatahrauni, Krónunni Flatahrauni, Fjarðarkaupum, Iceland Engihjalla, Hagkaup Garðabæ, Kjörbúðinni Sandgerði og á Heimkaup.is. Hér er aðeins um beinan verðsamanburð að ræða, en ekki er lagt mat á gæði eða þjónustu söluaðila.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×