Þessa stundina eru 216 gestir á sóttkvíarhótelinu og segir Gunnlaugur Bragi Björnsson upplýsingafulltrúi að flestir sýni stöðunni skilning. „Okkar hlutverk er fyrst og fremst að tryggja að fólk hafi það sæmilegt hér á meðan það þarf að dvelja hérna.“
Líkt og áður hefur verið greint frá eru ekki allir allskostar sáttir við það að þurfa að dvelja á hótelinu. Í dag verða teknar fyrir kærur í Héraðsdómi Reykjavíkur frá gestum sem krefjast þess að taka út sóttkvína heima hjá sér.
Gunnlaugur segir engan hindra för fólks, kjósi það að yfirgefa hótelið. Starfsfólki sé þó skylt að tilkynna slíkt til lögreglu.
„Starfsfólk Rauða krossins hefur hvorki heimild né vilja til að hindra för fólks, það er annarra að gera það. Okkar fólk mun alltaf reyna að upplýsa gesti um að þeim sé ráðlagt að vera og það að fara sé brot á sóttkví og þar með sóttvarnalögum en það mun ekki hindra för fólks.“
Fréttin hefur verið uppfærð.