Erlent

McConaughey þreifar fyrir sér varðandi framboð

Samúel Karl Ólason skrifar
Matthew McConaughey hefur gefið orðrómi um mögulegt framboð hans byr undir báða vængi.
Matthew McConaughey hefur gefið orðrómi um mögulegt framboð hans byr undir báða vængi. EPA/DAN HIMBRECHTS

Leikarinn Matthew McConaughey hefur opinberlega rætt áhuga sinn á því að bjóða sig fram til embættis ríkisstjóra Texas á næsta ári. Undanfarið hefur McConaughey þó tekið vangaveltur sínar um framboð lengra og hringt í áhrifamikla aðila innan stjórnmálasenunnar í heimaríki sínu og þreifað fyrir sér varðandi mögulegan stuðning.

Þetta kemur fram í frétt Politico þar sem segir að meðal þeirra sem leikarinn hafi rætt við sé áhrifamikil auðjöfur sem teljist hófsamur íhaldsmaður. McConaughey hefur spurt hann og aðra út í hverjar þau telji líkur hans á að ná kjöri og hefur hann sagst vera að íhuga af alvöru að bjóða sig fram.

Orðrómur um mögulegt framboð McConaugheys hefur verið á kreiki um mánaða skeið og hann hefur sjálfur ýtt undir þá. Hann býr í Austin í Texas ásamt eiginkonu sinni og börnum, þar sem hann hefur tekið virkan þátt í góðgerðastarfi að undanförnu og meðal annars safnað milljónum dala fyrir fólk sem kom illa út úr kuldakastinu sem skók Texas í fyrra.

Greinendur sem Politico ræddi við telja þó litlar líkur á því að McConaughey gæti velt ríkisstjóranum Greg Abbott úr sessi. Sá njóti öflugs stuðnings viðskiptalífsins í Texas og sitji á digrum kosningasjóðum.

Það þykir þó ekki ómögulegt.

Einn viðmælandi Politico sagðist undrast það að McConaughey væri ekki talinn ógna Abbott. Hann sé mjög frægur og gífurlega vinsæll í Texas og að framboð hans myndi fá gífurlega athygli í Bandaríkjunum.

Enn er þó alfarið óljóst hvaða baráttumál McConaughey myndi keyra á og jafnvel fyrir hvorn flokkinn, ef einhvern, hann myndi vilja bjóða sig fram.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×