Þá ítrekaði hann í kvöld, eins og hann hefur gert áður, að árásunum yrði haldið áfram þar til þeirra væri ekki lengur þörf.
Á undanförnum níu dögum hefur um 3.450 eldflaugum verið skotið að Ísrael.
Her Ísraels áætlar að Hamas og samtökin Islamic Jihad hafi í upphafi þessara nýjustu átaka átt um það bil tólf þúsund eldflaugar og sprengjur í sprengjuvörpur. Reuters hefur eftir talsmanni hersins að Hamas-liðar gætu haldið skothríðinni áfram um nokkurt skeið.
Ísraelsher hefur gert hundruð loftárása, auk annars konar árása með stórskotaliði og skriðdrekum, á undanförnum dögum en nákvæmari tölur hafa ekki verið gefnar upp.
Talið er að nærri því 450 byggingar á Gasa hafi verið eyðilagðar eða skemmdar og Sameinuðu þjóðirnar segja um 52 þúsund manns vera á vergangi. Um tvær milljónir manna búa í miklu þéttbýli á Gasa.
Heilbrigðisráðuneyti Gasa, sem Hamas stjórnar, segir minnst 217 Palestínumenn hafa fallið í loftárásum Ísraels og þar af 63 börn. Þá hafi rúmlega 1.400 manns særst. Í Ísrael hafa tólf fallið og þar af tvö börn. Tveir verkamenn frá Taílandi eru sagðir hafa fallið í eldflaugaárás í dag.
BBC hefur eftir embættismönnum í Ísrael að þar á bæ sé talið að minnst 150 meðlimir Hamas og Islamic Jihad hafi verið felldir. Heilbrigðisráðuneyti Gasa gerir þó ekki grein fyrir slíku í tölum sínum.
Eins og áður segir hefur alþjóðlegur þrýstingur á að vopnahléi verði komið á aukist verulega. Viðræður meðal aðildarríkja Öryggisráðs Sameinuðu þjóðanna í dag stóðu þó stutt yfir í dag og enduðu án þeirrar ályktunar sem Frakkar höfðu kallað eftir að yrði samþykkt.
Erindrekar frá Egyptalandi hafa reynt að miðla til friðar, með aðstoð Sameinuðu þjóðanna, en sú viðleitni þeirra hefur hingað til fallið á dauf eyru.