Fótbolti

23 dagar í EM: Níu mörk í fimm leikjum er met sem seint verður slegið

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Michel Platini var á hápunkti ferils síns sumarið 1984 þegar hann var besti og markahæsti maðurinn í besta liði Evrópu og setti met sem seint verður slegið.
Michel Platini var á hápunkti ferils síns sumarið 1984 þegar hann var besti og markahæsti maðurinn í besta liði Evrópu og setti met sem seint verður slegið. Getty/Mark Leech

Vísir telur niður í Evrópumótið í knattspyrnu sem hefst 11. júní næstkomandi. Nú ætlum við að skora frammistöðu Michel Platini á EM 1984.

Sumarið 1984 setti franski knattspyrnumaðurinn Michel Platini markamet sem enginn hefur komist nálægt því að jafna síðan.

Platini var án nokkurs vafa maðurinn á bak við Evrópumeistaratitil Frakka á heimavelli í júní 1984.

Evrópukeppnin innihélt þá bara átta þjóðir sem er sextán færri en voru bæði á EM 2016 og verða aftur á EM í sumar.

Michel Platini var þetta sumar 29 ára gamall og á hátindi ferils síns. Hann hafði spilað með Juventus í tvö tímabil og hafði fengið Gullboltann sem besti leikmaður Evrópu árið á undan.

Það var því mikil pressa á Platini að standa sig á þessu móti á heimavelli. Frakkar höfðu aldrei unnið stórmót í knattspyrnu og héldu nú keppnina á eigin heimavelli.

Platni stóðst þessa pressu og miklu meira en það. Hann skoraði alls níu mörk í fimm leikjum liðsins á mótinu þar af þrennu í tveimur leikjum í riðlakeppninni, sigurmarkið í bæði fyrsta leik mótsins sem og í framlengdum undanúrslitaleik og loks fyrsta markið í úrslitaleiknum á móti Spánverjum.

Platini skoraði sigurmarkið á móti Dönum í fyrsta leik, hann var með þrennu í 5-0 sigri á Belgíu í leik tvö og skoraði öll þrjú mörkin í 3-2 sigri á Júgóslavíu í lokaleik riðilsins.

Í undanúrslitaleiknum lentu Frakkar undir á móti Portúgal í framlengingu en Platini átti stoðsendinguna í jöfnunarmarki Jean-François Domergue og skoraði síðan sigurmarkið sjálfur.

Í úrslitaleiknum kom Platini síðan Frökkum í 1-0 á móti Spánverjum með marki beint úr aukaspyrnu. Frakkar skoruðu síðan seinna markið sitt á 90. mínútu leiksins.

Franska landsliðið skoraði alls fjórtán mörk í mótinu og því var fyrirliðinn með 64 prósent marka liðsins.

Platini skoraði líka þrefalt meira en næstmarkahæsti maður mótsins sem var Daninn Frank Arnesen með þrjú mörk. Alls voru skoruðu 41 mark á öllu mótinu og var Platini því með 22 prósent þeirra.

Sá sem hefur komist næst því að jafna metið var Antoine Griezmann á EM 2016 en hann skoraði þá sex mörk í sjö leikjum. Marco van Basten skoraði 5 mörk í 5 leikjum á EM 1988 og það gerði líka Alan Shearer á EM 1996.

Þeir Savo Milosevic frá Júgóslavíu og Patrick Kluivert frá Hollandi skoruðu líka fimm mörk á EM 2000 og Tékkinn Milan Baros var með fimm mörk á EM 2004.

Níu mörk Michel Platini á EM 1984

  • 1) Með hægri fæti utan teigs á móti Danmörku
  • 2) Með vinstri fæti af vítateigslínu á móti Belgíu
  • 3) Með hægri fæti úr vítaspyrnu á móti Belgíu
  • 4) Með skalla úr vítateig á móti Belgíu
  • 5) Með vinstri fótar skoti úr vítateig á móti Júgóslavíu
  • 6) Með hægri færi beint úr aukaspyrnu á móti Júgóslavíu
  • 7) Með skutluskalla úr vítateig á móti Júgóslavíu
  • 8) Með hægri fótar skoti rétt utan markteigs á móti Portúgal
  • 9) Með hægri færi beint úr aukaspyrnu á móti Spáni

Samantekt á mörkum Michel Platini:

  • 2 mörk með vinstri fæti
  • 5 mörk með hægri fæti
  • 2 mörk með skalla
  • 2 mörk beint úr aukaspyrnu
  • 1 mark úr vítaspyrnu
  • 3 mörk utan teigs

Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×