Þetta segir danski miðillinn Sport Fyn. Andreas Alm var ráðinn þjálfari OB en Arnar var annar tveggja þjálfara í viðbót sem að ráðgjafafyrirtækið Onenexus mælti með, samkvæmt miðlinum. Hinn var Svíinn Jens Gustafsson.
Ekki kemur fram hvort að formlegar viðræður hafi átt sér stað á milli forráðamanna OB og Arnars en hann er samningsbundinn KSÍ til næstu tveggja ára og enn settur yfirmaður knattspyrnumála.
Hvorki náðist í Arnar né Guðna Bergsson, formann KSÍ, nú fyrir hádegi.
Arnar tók við A-landsliði karla rétt fyrir síðustu áramót og stýrði liðinu í fyrstu leikjunum í undankeppni HM í mars. Framundan eru vináttulandsleikir í mars en til stóð að Arnar myndi tilkynna leikmannahópinn fyrir þá leiki í dag. Því var þó frestað vegna breytinga á hópnum.
Arnar hefur á þjálfaraferli sínum stýrt liði Cercle Brugge og einnig Lokeren þar sem hann var þó lengst af aðstoðarþjálfari. Hann tók við U21-landsliði Íslands árið 2019 og stýrði því áleiðis í lokakeppni EM.