Rósa Kristín Jónsdóttir býr í Ytri Njarðvík í Reykjanesbæ. Hún er í Njarðvíkurskóla og í Tónlistarskóla Reykjanesbæjar, auk þess sem hún æfir körfubolta og dans. Hún byrjaði að læra á túbu fyrir einu og hálfu ári en það er stærsta hljóðfærið í fjölskyldu málmblásturshljóðfæranna og ekki á allra færi að blása í það.
„Þegar ég sá hljóðfærið í fyrsta skipti, þá sagði ég bara, vá, mér finnst þetta örugglega mjög skemmtilegt og ég byrjaði þá bara að æfa á það. Mér finnst túban ekkert þung, ég er búin að æfa svo lengi að hún er bara orðin létt“, segir Rósa Kristín.
Rósa segir að fólk verði oft mjög hissa þegar það sjái hana spila á túbuna.

„Já, það spyr, vá, getur þú alveg haldið á þessu og prufar á halda á túbunni og segir, vá hvað þetta er þungt.“
Rósa Kristín er með markmið sín á hreinu en það er að spila í Sinfóníuhljómsveit Íslands þegar hún verður orðin fullorðin
„Já, ef ég æfi mig mikið og hætti ekki, þá kemst ég örugglega í Sinfóníuhljómsveitina.“
Rósa hefur líka mjög gaman af því að syngja og þá æfir hún körfubolta nokkrum sinnum í viku með Njarðvík, auk þess að æfa dans.
