Körfubolti

Devin Booker á góðri leið með að mölbrjóta Kardashian bölvunina

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Devin Booker er að gera flotta hluti með Phoenix Suns og er líklegur sem ein af stórstjörnum NBA-deildarnnar næstu árin.
Devin Booker er að gera flotta hluti með Phoenix Suns og er líklegur sem ein af stórstjörnum NBA-deildarnnar næstu árin. AP/Ross D. Franklin

Hingað til hefur það verið nánast dauðadómur fyrir körfuboltaferil NBA leikmanns að verða kærasti einhverjar úr Kardashian fjölskyldunni. Eða þangað til að Devin Booker tók sig til og sendi bölvunina til föðurhúsanna.

Leikmannaferlar manna eins og Tristan Thompson, Chandler Parsons og Lamar Odom urðu fljótt að engu eftir að þeir eignuðust Kardashian fyrir kærustu og allir langt frá því að vera sömu leikmenn og fyrir kynnin. Einhverjir fróðir menn hafa reiknað það út að það hafi kostað þessa leikmenn um 150 milljónir dollara að körfuboltaferlarnir brunnu út á augabragði.

Árið 2018 fóru menn að tala og skrifa um a Kardashian bölvunina. Það er eitt að fara í nokkur viðtöl og myndatöku fyrir Sports Illustrated en allt annað líf að stíga inn í Kardashian heiminn með ljósmyndurum á hverju götuhorni og þar sem fjölskyldan lifir á athyglinni.

Þegar hinn stórefnilegi Devin Booker og Kendall Jenner fóru að stinga saman nefjum óttuðust menn hið versta. Ben Simmons hafði verið kærasti Jenner á undan og varð alla vega ekki verri leikmaður. Það var því smá von. Hún er líka Jenner en ekki Kardashian sem hjálpar kannski eitthvað.

Booker hefur blómstrað við hlið Kendall Jenner. Hann var besti leikmaðurinn í búbblunni þar sem hann var með 30,5 stig, 5 fráköst og 6 stoðsendingar að meðaltali og Phoenix Suns vann síðustu átta leikina.

Nú er kappinn kominn inn í úrslitakeppnina með Phoenix Suns og þessi 24 ára bakvörður hefur átt mjög gott tímabil með 25,6 stig, 4,2 fráköst og 4,3 stoðsendingar að meðaltali og Suns liðið er komið í hóp með bestu liðum deildarinnar.

Það er því ekkert skrýtið að menn séu farnir að tala um að Devin Booker sé á góðri leið með að mölbrjóta Kardashian bölvunina. Kannski kominn tími til.

NBA



Fleiri fréttir

Sjá meira


×