Adomas Drungilas er aðeins búinn að spila einn leik með Þór í úrslitakeppninni í ár eftir að hafa tekið út leikbann í fyrstu þremur leikjunum í átta liða úrslitunum.
Þórsarar komust í 2-1 á móti Þór Akureyri án hans og unnu síðan fyrsta leikinn með hann í liðinu með 32 stigum á útivelli. Drungilas var með 8 stig, 10 fráköst og 2 varin skot á 25 mínútum sem Þórsliðið vann með 24 stiga mun.
Þórsliðið vann báða deildarleiki sína á móti Stjörnunni í vetur og það með samtals tuttugu stiga mun. Þar munaði mikið um framlag Adomas Drungilas.
Drungilas skilaði 28,5 framlagsstigum að meðaltali í þessum tveimur leikjum á móti Garðabæjarliðinu en í þeim var hann með 15,0 stig, 12,0 fráköst og 7,0 stoðsendingar að meðaltali í leik og hitti úr 61 prósent skota sinna fyrir innan þriggja stiga línuna.
Þetta er hæsta framlag Drungilas að meðaltali á móti einu félagi í vetur en hann var einnig mjög öflugur á móti Val, ÍR og Tindastól.
Drungilas skoraði reyndar meira í leikjum sínum á móti ÍR (18,0), Grindavík (17,0), Hetti (15,5), Keflavík (15,5) og Njarðvík (15,5). Hann var aftur á móti með flest fráköst, flestar stoðsendingar, flesta stolna bolta og flest varin skot á móti einu liði í leikjunum á móti Stjörnunni.
Fyrsti leikur Þórs Þorl. og Stjörnunnar hefst klukkan 20.15 í kvöld og er hann sýndur beint á Stöð 2 Sport. Upphitun hefst klukkan 19.45 og eftir leikinn verður leikurinn gerður upp.
Hæsta framlag Adomas Drungilas í leik á móti einstökum mótherjum í vetur:
- 28,5 á móti Stjörnunni
- 26,0 á móti Val
- 25,5 á móti ÍR
- 24,5 á móti Tindastól
- 21,0 á móti Keflavík
- 20,0 á móti KR

Domino's Körfuboltakvöld er uppgjörsþáttur Stöðvar 2 Sports um Domino's-deildir karla og kvenna í körfubolta og er á dagskrá öll föstudagskvöld. Upptökur af þættinum má nálgast á sjónvarpsvef Stöðvar 2. Domino's-deildin er hluti af Stöð 2 Sport Ísland.