Stjórn körfuknattleiksdeildar Snæfells sendi frá sér tilkynningu í dag þar sem kemur fram að hún hafi ákveðið að skrá kvennalið sitt í fyrstu deild fyrir komandi leiktíð.
Það er ekki langt síðan að Snæfellskonur voru í fremstu röð í kvennakörfunni en það hefur fjarað mikið undan liðinu á síðustu árum.
Snæfell varð Íslandsmeistari þrjú ár í röð frá 2014 til 2016 og spilaði einnig til úrslita um Íslandsmeistaratitilinn árið 2017.
Liðið bjargaði sér frá falli á lokasprettinum í vetur en KR-konur féllu úr Domino's deildinni.
„Ástæða er rekstur sem og að máttarstólpar liðsins frá síðustu leiktíð leita á önnur mið og um leið erfitt að manna lið fyrir Dominos deildina,“ segir í fréttatilkynningunni.
Njarðvík og Grindavík eru að spila um eitt laus sæti í Domino's deildinni en svo gæti farið að þau fái bæði sæti í Domino's deildinni á næsta tímabili.
Snæfell er því enn eitt félagið sem fer þessa leið í kvennakörfunni en Grindavík, KR og Stjarnan hafa gert hið sama á síðustu árum. Stjarnan lagði reyndar niður meistaraflokk kvenna hjá sér en hefur endurvakið hann aftur.