Þór frá Þorlákshöfn mistókst að tryggja sér sæti í lokaúrslitunum um Íslandsmeistaratitilinn í gærkvöldi og í staðinn fáum við oddaleik í Þorlákshöfn á laugardaginn kemur.
Það vissu flestir að Þórsarar gætu ekki spilað annan eins fullkomin leik á móti Stjörnunni og þeir gerðu í leik þrjú en það gat enginn séð fyrir að þeir myndu bjóða upp á verstu frammistöðu liðs í úrslitakeppninni í ár.
Þórsarar fóru frá því að vera með hæsta framlagið í úrslitakeppninni í ár í að vera með lægsta framlagið.
Framlag liðsins fór úr 160 framlagsstigum niður í 50 milli leikja. Það lækkaði um 110 stig eða um tæplega 69 prósent sem er ótrúleg lækkun.
Þór vann þriðja leikinn með 23 stigum, 115-92, þar sem liðið hitti meðal annars úr 60 prósent þriggja stiga skotanna og 88 prósent vítanna auk þess að vinna fráköstin, gefa 31 stoðsendingu og tapa bara 10 boltum.
Í leiknum í Garðabænum í gær þá töpuðu Þórsarar með 20 stigum, 58-78, þar sem þeir hitti aðeins úr fimmtán prósent þriggja stiga skotanna og 71 prósent vítanna. Þeir töpuðu 13 boltum og urðu undir í frákastabaráttunni.
Liðið skoraði átján körfum færra en í leiknum á undan og átti aðeins samtals sex stoðsendingar allan leikinn. Liðið fór úr því að vera með 3,1 stoðsendingu á hvern tapaðan bolta í að vera með 2,2 tapaða bolta á hverja stoðsendingu.
- Hæsta framlag liðs í einum leik í úrslitakepninni 2021:
- 1. Þór Þorl. 160 (á móti Stjörnunni 6. júní)
- 2. Stjarnan 143 (á móti Grindavík 28. maí)
- 3. Þór Þorl. 137 (á móti Þór Ak. 26. maí)
- -
- Lægsta framlag liðs í einum leik í úrslitakepninni 2021:
- 1. Þór Þorl. 50 (á móti Stjörnunni 9. júní)
- 2. Þór Ak. 51 (á móti Þór Þorl. 26. maí)
- 3. Tindastóll 68 (á móti Keflavík 15. maí)
- -
- Breyting á framlagi lykilleikmanna Þórs á milli leikja:
- Halldór Garðar Hermannsson -9 (15 í 6)
- Adomas Drungilas -10 (19 í 9)
- Larry Thomas -10 (14 í 4)
- Ragnar Örn Bragason -13 (13 í 0)
- Davíð Arnar Ágústsson -14 (14 í 0)
- Emil Karel Einarsson -15 (13 í -2)
- Styrmir Snær Þrastarson -16 (31 í 14)
- Callum Reese Lawson -26 (35 í 9)