Ómar Ingi Magnússon heldur áfram að gera frábæra hluti hjá Magdeburg. Liðið vann öruggan átta marka sigur á Ludwigshafen, lokatölur 37-29 þar sem Ómar Ingi var markahæstur í liði Magdeburg með 9 mörk.
Oddur Gretarsson skoraði eitt mark í mikilvægum tveggja marka sigri Balingen-Weilstetten á Wetzlar. Oddur og félagar eru í mikilli fallbaráttu og þurftu nauðsynlega á sigri að halda í dag.
Ýmir Örn Gíslason komst ekki á blað en nældi sér í gult spjald er Rhein-Neckar Löwen lagði Bergischer með tveggja marka mun á útivelli, 30-28. Arnór Þór Gunnarsson lék ekki með Bergischer í dag.
Að lokum skoraði Viggó Kristjánsson fimm mörk í góðum fjögurra marka útisigri á Stuttgart á Nordhorn-Lingen, lokatölur 28-24.
Magdeburg er sem stendur í 3. sæti með 50 stig, Löwen eru sæti neðar með 47 stig. Stuttgart og Balingen-Weilstetten eru bæði með 27 stig, þremur stigum fyrir ofan fallsæti.