Arngrímur Guðmundsson, aðstoðaryfirlögregluþjónn lögreglunnar á Suðurnesjum, segir vel hafa gengið að halda skipulagi þrátt fyrir mikla fjölgun ferðamanna en afkastagetu á flugvellinum takmarkaða.
„Við fjölgun farþega lengist talsvert í röðunum. Síðasta laugardag var mikill fjöldi hér og farþegar þurftu að bíða í allt að þrjá tíma til að komast út af flugstöðinni,“ sagði Arngrímur í kvöldfréttum Stöðvar 2.
„Þegar mest lætur nær röðin, fyrir þá sem þekkja, inn á töskuafhendingarsvæðið og hringast um allan töskusal, upp stigann og langt út í suðurbygginguna á flugstöðinni,“ sagði Arngrímur.

Til stendur að breyta fyrirkomulagi sóttvarnaaðgerða á landamærum þann 1. júlí næstkomandi, sem er nú á fimmtudag. Hætt verður að skima þá sem framvísa vottorðum um bólusetningu eða fyrri sýkingu af völdum Covid-19 og þá verður einnig hætt að skima börn fyrir Covid-19 við komuna til landsins.
Þeir sem ekki geta framvísað slíkum vottorðum þurfa þó áfram að framvísa neikvæðum PCR-vottorðum og mega þau ekki vera eldri en 72 klukkustunda gömul. Þá þurfa þeir einnig að fara í tvær PCR-skimanir hér á landi með fimm daga sóttkví á milli.
„Skipulagið verður það sama, eins og þú sást hérna þurfa þeir sem koma til landsins að framvísa vottorðum,“ sagði Arngrímur.